Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010
27.5.2010 | 12:59
Skýrsla formanns LC8 veturinn 2009-2010.
Veturinn 2009-2010 hjá okkur var afmælisár áttunnar, en við áttum 10 ára afmæli þann 6.nóvember 2009. Var undirbúningur því snemma hafinn á konukvöldi sem halda átti á afmælisdaginn, og sérstök afmælisnefnd sett á fót vorið 2009 með Ásu Jóhanns, þáverandi formanni, í fararbroddi.
Árið hófst þó í maí með dekurfundi eins og vani er orðinn hjá LC8. Þetta sinn þó á föstudeginum 8.maí. Farið var á Hótel Sögu í spa þar í kjallaranum. Þar var farið í heita pottinn ásamt því að nokkrar konur skelltu sér í gufu. Eftir að skála í freyðivíni og hafa slakað vel á skelltum við okkur í sparigallann og fórum í herbergi inn af Mímisbar þar sem við snæddum ljúffengan kvöldverð. Eftir að njóta kvöldverðar og skála í ýmsum kokteilum héldu sumar út á lífið þar sem dansað var fram á rauða nótt.
Í lok ágúst var svo haldið sumargrill þar sem hist var með fjölskyldurnar í Grenilundi í Heiðmörk farið í ratleik og fleiri leiki og að lokum grillaðar pulsur í svanga munna. Var ágætlega mætt.
Stuttu síðar, eða mánudaginn 7.september, buðu Þóra og Ása Lára til fyrsta formlega fundar vetrarins. Hann var haldinn að heimili Þóru og mætti þar Bergþór Pálson, stórsöngvari með meiru og kenndi okkur borðsiði.( http://www.youtube.com/watch?v=bgieA6BJ-Pc) Hann var stórskemmtilegur eins og honum er einum lagið, einlægur og sagði okkur einnig frá skemmtilegum boðum þeirra Alberts og ýmsum uppákomum tengdum þeim. Þegar hann var farinn báru þær fram dýrindis Baguette frá Deli sem allir gæddu sér á en fóru að sjálfsögðu eftir borðsiðum sem kenndir voru.
5.október hélt stjórnin fund þar sem farið var í Garðyrkjuskólann í Hveragerði þar sem við fengum leiðsögn um svæðið. Fyrst þó úti í myrkrinu með vasaljós og svo inni í skólanum og gróðurhúsum skólans. Var það bæði fróðlegt og skemmtilegt að ganga t.a.m. framhjá bananatré, fíkjutré og fleira. Að lokum var farið á Hótel Örk þar sem við fengum grillaða kjúklingabringu með viðeigandi meðlæti.
Loks var komið að afmælisdeginum, konukvöldinu, sem undirbúið hafði verið síðan um vorið. Fengin voru listafólk úr mörgum greinum og margar listakonur sem tengjast okkar góðu klúbbum. Mikið var um skartgripahönnuði og einnig fatahönnuði. Var Helga Guðný, fráfarandi landsforseti, fengin sem kynnir sem hún var vel til í þrátt fyrir að vera komin 8 mánuði á leið. Ungt danspar frá Dansskóla Jóns Péturs og Köru sýndi 2 dansa og einnig höfðum við fengið lánuð falleg tískuföt frá KVK hönnun og hönnunarbúðinni RYK (http://www.kow.is og http://www.ryk.is) og héldum tískusýningu fyrir konurnar sem heppnaðist ákaflega vel að okkar mati. Þegar flotta tískuhlutanum var lokið, var skipt yfir í gömul föt og haldin kreppusýning. Vakti sú sýning mikinn fögnuð kvennana og fengum við uppklapp og mikinn hlátur. Einnig var dregið reglulega allt kvöldið úr rúmlega 20 vinningum, en happadrættis-númer var með hverjum aðgöngumiða ásamt einu glasi af léttvíni eða gosi.
Jólafundurinn okkar, var í höndum Möggu og Bergþóru. Hann var haldinn í Bókasafni Seltjarnarness við Eiðistorg. Fengum við fyrst smá kynningu á 3 rauðvínstegundum frá Gunnari Gunnarssyni vínáhuga-manni í RT. Toshiki Toma, sérþjónustuprestur innflytjanda, hélt svo smá erindi um störf sín og svaraði m.a. hvort jól væru haldin í Japan meðan við gæddum okkur á ljúffengri Hnetusteik frá Næstu Grösum og fengum Heimilisfrið með karamellusósu, ís og rjóma í eftirrétt ala Magga.
Sólrún og Hildur héldu janúarfundinn, Afmælisterta, 11.janúar í Farfuglaheimilinu í Laugardal, þar sem Sigrún Pálsdóttir hjá Landvernd hélt fyrirlestur um Vistvernd í verki. Áður höfðum við fyrst borðað góðan mat frá Saffran. Eftir fyrirlesturinn hafði Hildur bakað dýrindis marengs-rjómatertur í eftirrétt sem konur gúffuðu í sig með síðbúnu kaffi.
Þann 1.febrúar höfðu Björk og Laulau fund í Rannís, Rannsóknarmiðstöð Íslands, Laugavegi 13. Þar tók Aðalheiður Jónsdóttir kynningarstjóri Rannís á móti okkur og kynnti fyrir okkur þau tækifæri sem standa Íslendingum til boða í Evrópusamstarfi í gegnum hinar ýmsu styrktaráætlanir ESB á sviði menntunar, menningar, atvinnulífs og rannsókna. Að því loknu var haldið á veitingastaðinn Caruso í Bankastræti þar sem við snæddum kjúklingasalat og héldum fund.
Marsfundur var svo í höndum Steinunnar og Auðar sem var færður á þriðjudaginn 2.mars. Fengu þær Guðjón Bergmann að halda fróðlega blöndu af tveimur fyrirlestrum um hinar sjö mannlegu þarfir og heildræna heimspeki. Eftir það voru Pizzur frá Rizzo snæddar í þögn. Allar konur voru svangar og hugsi.
Aðalfundur áttunnar var svo haldinn mánudaginn 12.apríl heima hjá formanni að venju þar sem stjórnin sá um veitingarnar. Voru þá 4 nýjar konur vígðar inn í klúbbinn okkar og bjóðum við þær Lindu Rós, Lindu Báru, Bryndísi og Lilju því hjartanlega velkomnar í klúbbinn.
Brostu framan í heiminn, þá brosir heimurinn framan í þig. J
Lilja Guðrún, formaður.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2010 | 13:06
3. maí 2010, DEKURFUNDUR
Kæru konur.
Dekurfundurinn okkar verður ekki á Grand Hótel sem fyrr sagði.
Við hittumst á Hlemmi klukkan 19:30 og göngum saman út í óvissuna. Dekrað verður við bragðlaukana allt kvöldið.
Fundurinn verður með frekar hefðbundnu sniði, nema að hann verður kannski ívið lengri en vanalega.
Annað verður ekki gefið upp að sinni.
Hlökkum til að sjá ykkur :D
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Eldri færslur
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- Ágúst 2011
- Maí 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010